Byggingar úr svokölluðum CLT einingum eru að ryðja sér til rúms hér á landi. Um er að ræða massífar krosslímdar timbureiningar sem geta myndað útveggi, þök og milliveggi bygginga og eru á sama tíma burðarvirki byggingarinnar. Í mörgum tilfellum duga einingarnar einar og sér sem burðarvirki en fyrir lengri haflengdir getur þurft að nota hefðbundið burðarvirki úr límtré eða stálvirki til viðbótar.
Þær brunakröfur sem hafa áhrif á CLT einingar má með einföldum hætti skipta í þrennt samkvæmt eftirfarandi:
- Brunamótstaða burðarvirkja. Einingarnar eru burðarvirki mannvirkisins og þurfa því að viðhalda stöðugleika í ákveðinn tíma í bruna.
- Yfirborðskrafa. Einingarnar eru úr timbri og taka því þátt í útbreiðslu elds og myndun reyks við bruna. Í mörgum tilfellum þarf að klæða einingar af eða eldverja yfirborð með öðrum hætti.
- Brunahólfun. Einingarnar eru efnismiklar og geta tryggt brunahólfun í ákveðinn tíma sé frágangur með réttum hætti.
Hönnunarforsendur og vottanir framleiðanda slíkra eininga byggja á umfangsmiklum prófunum. Það er því mikil þekking til staðar á brunaeiginleikum slíkra eininga. Timbur kolast í bruna sem hægir á brunaferli þess. Þykk timburþversnið, eins og á við um krosslímdar timbureiningar, hafa því sjálfkrafa ákveðna berandi og brunahólfandi eiginleika í bruna. Mjög algengt er að einingar uppfylli 60 mínútna brunahólfandi kröfu og brunamótstöðukröfu, án þess að það þurfi að eldverja þær sérstaklega. Eðli máls samkvæmt ná prófanir aðeins yfir hluta af þeim aðstæðum sem upp geta komið í hönnun slíkra mannvirkja. Til dæmis takmarkast prófanir við stöðluð brunaferli, sem gefa ekki alltaf rétta mynd af brunaþróun og hitastigi sem í raun og veru má búast við í viðkomandi mannvirki. Jafnframt miðast hönnunartöflur framleiðanda við ákveðið álag og haflengdir. Því er í sumum tilfellum mikilvægt að beita útreikningum í hönnun sem taka mið af raun aðstæðum, þannig má ná fram hagkvæmustu lausn sem uppfyllir kröfur um brunavarnir og öryggi.
CLT einingar uppfylla almennt yfirborðsflokk 2 (D-s2,d0 skv. evrópustaðli), en í mörgum tilfellum gerir Íslensk byggingarreglugerð kröfur um betri yfirborðsflokk m.t.t. þáttöku byggingarefna í eldútbreiðslu og reykmyndun við bruna. Almennt eru CLT hús einangruð að utan og klædd með veðurkápu, því hafa brunakröfur utanhússklæðninga ekki bein áhrif á einingarnar. Rétt er að geta þess að íslensk byggingarreglugerð heimilar ekki notkun á brennanlegri einangrun í byggingum úr CLT einingum, hvorki í útveggjumné þökum. Innanhúss mega einingarnar vera óvarðar í tveggja hæða íbúðarhúsum, en í öðrum tilfellum þarf að eldverja þær sérstaklega með klæðningu eða öðrum viðurkenndum hætti, nema að sýnt sé fram á í brunahönnun að annað uppfylli kröfur um öryggi. Hægt er að meta með útreikningum hvert umfang óvarinna timburklæðninga má vera án þess að öryggi skerðist umfram það sem ásættanlegt er. Þannig má í einhverjum tilfellum einfalda frágang á einingum og með því lækkað byggingarkostnað og jafnframt hafa einingar sýnilegar sem getur verið fýsilegt fyrir verkkaupa eða arkitekt.
ÖRUGG býr yfir mikilli þekkingu og hugbúnaði sem nýtist við brunatæknilegar greiningar mannvirkja úr slíkum einingum. Það á bæði við um greiningar á þróun og hitastigi bruna í viðkomandi byggingu sem og greiningu á varmaflæði í berandi einingum og brunamótstöðu þeirra. Jafnframt býr ÖRUGG yfir mikilli reynslu af hönnun slíkra mannvirkja, deililausnum og samspili brunavarna og annarra hönnunarþátta s.s. burðarþols, hljóðhönnunar, arkitektúrs o.fl. Þannig má tryggja að lausnir uppfylli ítrustu kröfur um öryggi og tryggja jafnframt hagkvæmni og sveigjanleika í hönnun og notkun mannvirkisins.