ENGLISHEN
BLoGG

Vistvæn brunahönnun bygginga

Brunahönnun er mikilvægur hluti af hönnun vistvænna bygginga. Í þessari grein er fjallað um ýmis atriði sem huga þarf að til að tryggja sjálfbærni bygginga hvað varðar brunavarnir.

Við mat á því hversu vistvænar brunavarnir í hönnun bygginga eru raunverulega er ekki nægjanlegt að taka eingöngu tillit til byggingarefnanna sjálfra, heldur þarf að taka tillit til heildarnotkunar og áhrifa ef bruni á sér staða. Eftir sem áður þarf að uppfylla kröfur reglugerða um öryggi fólks og eigna.

Byggingarreglugerð

Í markmiðum 9. hluta byggingarreglugerðar, sem fjallar um varnir gegn eldsvoða, segir að tryggja skuli að umhverfisáhrif vegna bruna verði innan ásættanlegra marka. Ekki hafa þó verið skilgreindar nánari kröfur varðandi umhverfisáhrif í hönnun bygginga. Það er því undir hönnuðum komið að meta umhverfisáhrif brunahönnunar.

Byggingarreglur er hægt að uppfylla með mismunandi hætti og algengt er að brunatæknilegum lausnum og útreikningum sé beitt til aðauka öryggi. Sömu aðferðum er hægt að beita til að meta áhrif bruna með tilliti til umhverfisins. Sem dæmi má nefna að með reykræsingu eða sjálfvirkum slökkvikerfum er hægt að auka notkun brennanlegra endurnýttra efna. Brunatæknilegar ráðstafanir sem auka öryggi draga einnig úr líkum á að eldur komi upp eða breiðist út.

Umhverfisáhrif bruna

Eldur sem ekki næst að slökkva á byrjunarstigi getur haft mikil áhrif á umhverfið, bæði vegna bruna byggingarefna og innanstokksmuna sem í byggingunni eru. Hér getur verið um að ræða efni sem geta valdið umhverfisáhrifum, svo sem loft-, grunnvatns- og jarðvegsmengun. Í brunanum verður til að mynda mikið af eitruðum reyk, sem fer út í umhverfið. Í reyknum er mikið magn sóts og oft á tíðum þungmálma og annarra mjög skaðlegra efna, sem valda miklum umhverfisáhrifum.

Í vissum tilvikum þegar slökkva þarf í hættulegum efnum í eða við byggingu getur slökkvivatnið valdið neikvæðum umhverfisáhrifum. Slökkviliðið tekur í hverju tilviki fyrir sig ákvörðun um áhrif slökkvistarfa og jafnvel hvort leyfa eigi eldi að brenna út.

ÖRUGG beitir m.a. áhættugreiningum til að meta umhverfisáhrif bruna og hvernig best er að hanna brunavarnir þannig að sem minnst umhverfisáhrif hljótist. Með því að bera loftslagsáhrif bruna saman við tölfræðilega væntanleg loftslagsáhrif af bruna og endurbyggingu fæst ákvörðunargrundvöllur fyrir lægstu heildarloftslagsáhrif.

Vistvæn efni

Vistvæn lífræn efni eru almennt brennanleg. Meta þarf áhrif þeirra og hvernig stuðlað verði að notkun þeirra án þess að öryggi fólks sé ógnað. Með því að greina mismunandi valkosti og bera saman loftslagsáhrif og innihald hættulegra efna er hægt að velja sjálfbærari kosti í efnisvali.

Brunatæknilegar lausnir geta gert aukna notkun á vistvænum lífrænum efnum mögulega og með áhættumati og útreikningum á eldsútbreiðslu ert.d. hægt að meta möguleika í notkun timburklæðninga. Þá skipta efniseiginleikar timbursins máli varðandi hraða útbreiðslunnar, m.a. rúmþyngd. ÖRUGG hefur framkvæmt ýmsa útreikninga til að meta áhrif mismunandi klæðninga á heildar öryggi.

Mynd 1: Timburklæðning með aukinni rúmþyngd (mynd frá Grósku)

Vistvottunarstaðlar nýbygginga, eins og BREEAM New Construction 2016 V6, mæla með og gefa auka einkunn (Credit) ef áhættumat er framkvæmt fyrir hönnun og framkvæmd byggingarinnar. Örugg verkfræðistofa veitir þjónustu við gerð slíks áhættumats og BREEAM vottun.

Endurnýting byggingarhluta

Kröfur til brunavarna bygginga eru mismunandi eftir notkun, fólksfjölda, brunaálagi og fleiru. Æskilegt er að huga að mögulegum sviðsmyndum og breyttum aðstæðum til framtíðar, til að skapa aukinn sveigjanleika í húsinu þannig að endurbóta sé ekki þörf ef aðstæður breytast. Þegar um endurbætur er að ræða kemur einnig til greina að styrkja núverandi byggingarhluta í stað þessað skipta yfir í nýja.

Endurnýting brunavarna krefst oft sérstakrar brunatæknilegrar greiningar á byggingarhlutum. Hurðir í byggingum þurfa í dag aðhafa samþykkt nothæfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (sjá m.a. blogg ÖRUGG um CE-merkingar). Einnig er heimilt að leggja inn sérteikningar til byggingarfulltrúa af brunahólfandi hurðum, sem gefur hönnuðum tækifæri til endurvinnslu byggingarhluta. Við greiningu á eldri hurðum þarf að taka tillit til fjölmargra þátta er varða brunamótstöðu, brunaþéttingar og allan búnað hurðarinnar, sem allt þarf að vera nægjanlega öruggt til að standast áraun hita. ÖRUGG hefur séð um að greina og leggja inn slíkar teikningar, en einnig aðstoðað við útfærslu annarra hönnuða, þannig að hægt sé að nota endurunnar hurðir og framkvæma sérstakar útfærslur arkitekta. Á Mynd 2 sjást niðurstöður útreikninga fyrir eldri timburhurð, þar sem tekið er tillit til kolunar og brunatæknilegra eiginleika timburs.

Mynd 2: Útreiknað hitaflæði í eldri timburhurð

Heildræn nálgun

Nýjar byggingaraðferðir, vörur og ný tækni í byggingum geta haft í för með sér nýjar brunahættur sem þarf að huga að. Þetta getur verið endurunnin byggingarefni, gróður á þökum og hliðum bygginga, notkun timburklæðninga, sólarsellur, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og fleira. Að öllum þessum þáttum þarf að huga við brunahönnun byggingarinnar.

Við hönnun vistvænna lausna í brunavörnum er að mörgu að huga í samspili brunatæknilegra þátta, vals á byggingarefnum og notkun bygginga. Þegar hanna á vistvæna „græna“ byggingu nálgast ÖRUGG verkefnið út frá heildarmynd umhverfisáhrifa, sem stuðlar að sveigjanlegum vistvænum byggingum.