ÖRUGG verkfræðistofa hefur séð um reglulegt áhættumat fyrir Almannavarnir vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Mikil reynsla í áhættumati, áhættustjórnun og viðbragðsmálum er mikilvægur þáttur í því að ÖRUGG er treyst fyrir þessu ábyrgðarfulla og mikilvæga verkefni. Böðvar Tómasson hefur verið verkefnastjóri, en hann hefur miklareynslu í áhættustjórnun og stundar doktorsnám í áhættustjórnun og samfélagsöryggi. Fjölmargir sérfræðingar hjá ÖRUGG hafa komið að verkefninu, en þó sérstaklega Birgir Þór Guðbrandsson og Kristín Rós Hlynsdóttir, auk þess sem Elvar Ingi Jóhannesson og Sturla Elvarsson hafa komið að gerð öryggiskorta og fleira.
Margs konar hættur steðja að í Grindavík og Svartsengi, bæði hvað snertir öryggi og heilbrigði almennings og viðbragðsaðila og mikilvægra innviða. Því er mikilvægt að ná utan um nauðsynlegar varnir og takmarkanir þeirra við mat á því hvar, hvernig eða hvenær hægt er að dveljast á svæðinu og hafa þar starfsemi. Vegna síbreytilegs ástands hefur reglulega verið gert áhættumat sem tekur tillit til hættumats Veðurstofu Íslands ásamt þeim vörnum og viðbrögðum sem eru möguleg vegna hættunnar.
Fjölmargir aðilar koma að viðbrögðum og vörnum í Grindavík, svo sem slökkvilið Grindavíkur, Slysavarnafélagið Landsbjörg og fjölmargir aðilar hjá Grindavíkurbæ. Lögreglan á Suðurnesjum gegnir lykilhlutverki í öryggismálum, með mikilvægum stuðningi frá Almannavörnum. Að auki eru fjölmargar stofnanir og aðilar sem tengjast mikilvægum innviðum svæðisins og vörnum, s.s. HS Orka, HS veitur, Vegagerðin, fjarskiptafyrirtæki og verkfræðistofur svo sem Efla og Verkís.
Flóknar og hættulegar aðstæður hafa skapast á svæðinu og því er mikilvægt að þverfagleg samvinna sé til staðar til þess að tryggja öryggi starfsfólks gagnvart síbreytilegri hættu. ÖRUGG hefur gert öryggisáætlun fyrir fyrirtæki starfandi í Grindavík til stuðnings við þau með tilliti til vinnuverndar í síkviku umhverfi. Jafnframt hefur ÖRUGG gert uppfærða rýmingaráætlun fyrir Grindavík sem tekur mið af hættum og er uppfærð reglulega. Á öryggiskorti koma fram upplýsingar um flóttaleiðir úr bænum auk margvíslegra öryggisupplýsinga.