Alþjóðlega ráðstefnan BJÖRGUN 2024 var haldin í Hörpu í 15 skiptið, 11.-13. október á vegum Landsbjargar. Hún hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1990. Í ár voru fyrirlesarar 50 talsins og fór ráðstefnan fram í fjórum sölum samtímis auk þess sem viðamikil vörusýning fór fram fyrir leitar- og björgunarfólk.
Framkvæmastjóri Örugg verkfræðistofu, Böðvar Tómasson flutti erindið Stjórnun áhættu í verkefnum viðbragðsaðila, þar sem fjallað var um hvernig aðferðarfræði áhættustjórnunar nýtist til að auka öryggi. Farið var yfir megin þætti í mati á áhættu, hvernig varnir og viðbrögð tengjast áhættustigi og hvaða vandamál þarf að taka tillit til við ákvörðun á áhættu í björgunaraðgerðum. Einnig var umfjöllun um hvernig áhættu þarf að setja í samhengi við mögulegan ávinning, til að meta fýsileika aðgerða.
Fyrirlesturinn var mjög vel sóttur og fjölmargar spurningar komu úr sal. Ljóst er að áhugi á öryggismálum og þeim áhættum sem björgunarfólk býr við er mikill, enda nauðsynlegt að tryggja öryggi sem best við slíka vinnu.