Í suðaustanverðri Evrópu, á Balkanskaga, er lítið ríki sem býr yfir einstakri náttúrufegurð, þakið fjöllum sem teygja sig um hreinar strendur Adríahafsins. Svartfjallaland var hluti af Júgóslavíu allt til ársins 2006, þegar það var formlega lýst sjálfstætt ríki. Fjöllin eru skógi vaxin og umvafin litlum þorpum sem hýsa hátt í 700.000 íbúa landsins.
Þann 5.-9. október fór verkfræðistofan ÖRUGG í árshátíðarferð að skoða undur Svartfjallalands, sem er þekkt alþjóðlega undir nafninu Montenegro. Gist var í bænum Budva á glæsilegu Alvala Resort hóteli sem m.a. býr yfir einkaströnd og sundlaug sem teygir sig í átt að sjónum.
Dagskrá ferðarinnar var vönduð og glæsileg í alla staði. Á fyrsta degi var farið í siglingu sem var í boði ÖRUGG og var siglt frá Tivat á kristaltærum sjónum meðfram fallegum ströndum og inn Kotorflóann. Fjallasýnin sem blasti við var engu lík. Stoppað var á eyju við bæinn Perast til að skoða Frúarkirkjuna, lítla en vinsæla kirkju sem sjómenn byggðu eftir að þeir fundu mynd af Maríu mey þar árið 1452. Siglt var að bænum þar sem hópurinn fékk hádegismat á veitingastað við höfnina og naut útsýnisins og dýralífsins. Endaði dagurinn með siglingu að borginni Kotor, þar sem gengið var um gamla bæjarhlutann sem er sögusvæði umkringt borgarmúrunum sem varpar ljósi á sögu og menningu staðarins.
Árshátíð starfsmanna var haldin daginn á veitingastaðnum Rivijera í gamla bænum í Budva. Veglegar kræsingar voru á boðstólnum og frábær samverustund þar sem allir skemmtu sér vel. Mikið var hlegið enda andinn hjá fyrirtækinu einstaklega jákvæður og skemmtilegur. Daginn eftir var farið í skoðunar og matargöngu um þennan fallega bæjarhluta Budva. Stoppað var á nokkrum veitingastöðum þar sem ÖRUGG fékk að kynnast hnossgæti að hætti heimamanna.