ÖRUGG hefur þróað og gefið út öryggisáætlun fyrir starfandi fyrirtæki í Grindavík í samvinnu við Almannavarnir og aðra hagaðila. Öryggisáætluninni er ætlað að styðja við öryggis- og vinnuverndarstarf fyrirtækjanna. Markmiðið er að fyrirbyggja og draga úr slysum, óhöppum og tjóni sem starfsfólk getur orðið fyrir við störf sín í Grindavík með tilliti til aukinnar óvissu vegna jarðhræringa.
Taka þarf tillit til mögulegra áhættuþátta eins og jarðskjálfta, hraunflæðis, loftgæða og sprungumyndana, ástands og fjölda flóttaleiða. Athuga þarf að hættur á svæðinu taka stöðugum breytingum og mögulegur fyrirvari rýmingar hefur styst með hverju gosi. Búast má við jarðskjálftum á Grindavíkursvæðinu sem ógnað geta öryggi starfsfólks vegna hrunhættu innréttinga og/eða annars hús- og vinnubúnaðar. Tryggja þarf að starfsfólki stafi ekki hætta af húsbúnaði (t.d. með festingum) og að búnaður geti ekki teppt flóttaleiðir. Bygging og/eða innanstokksmunir geta verið skemmd eftir jarðskjálfta.
Það er ávallt mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækja að hafa góðar öryggisleiðbeiningar og að farið sé yfir öryggis- og heilbrigðisáætlanir í samræmi við hættur á viðkomandi starfssvæði. Áhættumat allra fyrirtækja þarf að taka tilliti til þeirra óvissuþátta sem til staðar eru og verði búin öryggisbúnaði í samræmi við áhættumat.
Mikilvægt er að í upphafi vinnudags verði gert sjónmat á starfssvæðum þar sem gert er ráð fyrir viðveru starfsmanna. Sérstaklega skal meta áhættur sem tengjast núverandi hættum á svæðinu, svo sem mögulegum skemmdum í húsnæði, breytingum á umhverfi, skemmdum á lagnakerfi og mögulegri gasmengun. Framkvæma þarf mótvægisaðgerðir ef breytingar á umhverfinu finnast svo sem girða af hættu og meta aðstæður með tilliti til öryggis fólks. Forvarnir fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur til að koma megi í veg fyrir eða draga úr áhættu sem hefur verið metin sem ógn.
ÖRUGG verkfræðistofa hefur einnig unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum tengdum öryggisvörnum og áhættumati fyrir Almannavarnir, enda er mikil sérfræðiþekking innan stofunnar. Meðal verkefna er öryggiskort og aðstoð við skipulag verðmætabjörgunar fyrir Grindavík og heildaráhættumat fyrir svæðið.