ENGLISHEN
frettir

Viðnámsþróttur bygginga og BREEAM In-Use

Nýlegir atburðir komu mörgum í opna skjöldu þegar samverkandi þættir á borð við háa ölduhæð, sjávarstöðu, vindhraða og stórstreymi, ollu því að stórskemmdir urðu á byggingum og innviðum víða um suðvestanvert landið og einnig ollu atburðirnir slysum á fólki. Miðað við spár um loftslagsbreytingar má vænta þess að tíðni atburða sem þessa sé síst að fara minnkandi. Rýna þarf enn betur í skipulagsáætlanir til þess að gæta að því að tekið sé tillit til áhrifa loftslagsbreytinga til lengri tíma.

En hvað er til ráða þegar búið er að reisa byggingar á svæðum sem eru útsett fyrir þessari hættu? Opinberir aðilar bera ábyrgð á því að hækka og styrkja sjávar- og varnargarða og endurskoða skipulagsáætlanir. En fasteignaeigendur ættu ekki að sitja aðgerðalausir hjá og bíða örlaga sinna. Þeir þurfa að þekkja hætturnar sem að þeim steðja og byrgja þá brunna sem hægt er að byrgja. Eitt af því sem skoðað er í BREEAM In-Use vottun fyrir byggingar í rekstri er viðnámsþróttur byggingarinnar. Staðan er metin og lagðar til aðgerðir til þess að koma í veg fyrir eða milda afleiðingar atburða. BREEAM In-Use vottun hvetur til fyrirbyggjandi aðgerða og sjálfbærrar stjórnunar sem stuðlar að betri endingartíma byggingar og góðu ástandi til lengri tíma.

‍ÖRUGG verkfræðistofa hefur komið að áhættumati og greiningu á viðnámsþrótti fjölmargra bygginga, bæði vegna BREEAM In-Use vottunar og vegna almennra öryggisúttekta.

MYND: Sjólag.is